Vasa-safnið

For further information please visit the English version of our website.

Vasa er eina skipið frá 17. öld sem til er í heiminum. Yfir 95% af upprunalegum hlutum þess hafa varðveist og það er skreytt útskornum myndastyttum í hundraðatali. Vasa er því einstætt listaverk og meðal merkustu hluta sem ferðamenn eiga kost á að skoða.

Skipið er sýnt í sérstaklega byggðu safni í Stokkhólmi sem einnig hýsir níu tengdar sýningar, verslun með fjölbreyttum vörum og veitingahús í háum gæðaflokki.  Kvikmyndina um Vasa má skoða á sextán tungumálum. Fleiri gestir koma í Vasa-safnið en nokkurt annað safn á Norðurlöndum. Vasa eitt og sér gerir það þess virði a heimsækja Stokkhólm.

VASA FERST

Þann 10. ágúst 1628 voru dregin upp segl á stóru herskipi til að leggja úr höfn í Stokkhólmi. Það var hið nýbyggða Vasa, nefnt eftir konungsættinni sem var við völd. Í tilefni þessa merka atburðar var hleypt af heiðursskotum úr fallbyssunum sem stóðu út úr byssuopunum á hliðum skipsins.

Þegar þetta volduga skip sigldi hægt í átt að hafnarmynninu kom skyndilega vindhviða. Vasa hallaðist, en rétti sig við aftur. Önnur vindhviða lagði skipið á hliðina. Vatn flæddi inn um byssuopin, sem stóðu opin. Vasa sökk til botns og með því að minnsta kosti 30, jafnvel allt að 50 af 150 manna áhöfn þess. Það liðu 333 ár áður en Vasa sá aftur dagsins ljós.

FINNANDINN 

Anders Franzén, sjálfstæður könnuður, hóf leitina að Vasa í byrjun sjötta áratugarins. Frá barnæsku hafði hann verið hugfanginn af skipsflökunum í nánd við heimili foreldra hans í skerjagarðinum við Stokkhólm. Skipamaðkurinn, Teredo navalis, sem étur skipsflök úr tré, þrífst ekki í hinum seltulitla sjó í Eystrasalti. Anders Franzén gerði sé ljóst mikilvægi þessarar staðreyndar fyrir þau skip sem farist höfðu í Eystrasalti, og árið 1956 fann hann Vasa.

STÓRT MIÐAÐ VIÐ SINN TÍMA

Vasa var byggt í Stokkhólmi undir umsjón hollenska skipasmiðsins Henrik Hybertsson. Hann naut aðstoðar trésmiða, snikkara, myndhöggvara, málara, glerjara, seglagerðarmanna, járnsmiða og margra annarra iðnaðarmanna. Alls unnu fjögur hundruð manns við smíði Vasa.

Skipið var byggt eftir fyrirmælum Gústafs II Adolfs, konungs í Svíþjóð. Smíðin tók um tvö ár. Skipið var þrímastra, gat borið tíu segl, mældist 52 metrar frá siglutoppi til kjalar, 69 metrar milli stafna og var 1200 tonn að þyngd.  Þegar smíðinni var lokið var það eitt af öflugustu skipum sem nokkru sinni höfðu verið byggð.

HVAÐ FÓR ÚRSKEIÐIS?

Nú á tímum getum við reiknað nákvæmlega út hvernig hanna skal skip til að það verði sjóhæft. Á 17. öld voru notaðar töflur yfir mál sem áður höfðu reynst vel. Samkvæmt skjölum frá þessum tíma vitum við að áætlunum um Vasa var breytt eftir að smíðin hófst.

Konungurinn vildi hafa fleiri fallbyssur um borð en venjulegt var. Það þýddi að málin sem valin höfðu verið fyrir skipið áttu ekki lengur við og skipasmiðirnir voru í vanda staddir. Skipið var byggt með hárri yfirbyggingu með tveimur lokuðum dekkjum fyrir fallbyssur. Botn skipsins var fylltur stórum steinum sem kjölfestu til að gera það stöðugt í sjónum. En Vasa var of þungt að ofanverðu og þau 120 tonn af kjölfestu sem í því voru nægðu ekki.

HVERS VEGNA VAR VASA BYGGT?

Vasa átti að vera eitt af fremstu skipum sænska sjóhersins. Það hafði 64 fallbyssur, flestar 24 punda (þær skutu kúlum sem vógu 24 pund eða yfir 11 kg).

Svíþjóð átti um tuttugu herskip, en ekkert með jafn margar og þungar fallbyssur og Vasa.

Vasa hefði líklega siglt til Póllands, sem hafði verið helsta óvinaríki Svíþjóðar í mörg ár. Póllandi stjórnaði Sigismundur konungur, frændi sænska konungsins (þeir áttu sama afa í föðurætt). Sigismundur hafði eitt sinn verið konungur Svíþjóðar, en var steypt af stóli vegna þess að hann var kaþólskur.

EFTIR AÐ VASA VAR LYFT

Eftir nokkurra ára undirbúning kom Vasa upp á yfirborðið þann 24. apríl 1961. Næsta verkefni var að geyma það óskemmt. Skipsflak sem legið hefur svo lengi í sjó þarf að fá sérstaka meðferð. Annars mundi tréverkið með tímanum springa og molna niður.

Í fyrstu var Vasa úðað með vatni meðan sérfræðingar fundu viðeigandi aðferð til að vernda það. Valið var varnarefnið pólýetýlen glýkól (PEG), vatnsleysanlegt vaxkennt efni sem síast hægt inn í tréð og kemur í stað vatnsins. Úðun með PEG stóð í mörg ár.

HÖGGMYNDIRNAR

Með Vasa var yfir 14.000 lausum trémunum bjargað, þar á meðal 700 höggmyndum. Þær voru meðhöndlaðar með varnarefni hver í sínu lagi og settar aftur á upphaflega staði í skipinu. Verkið líktist því að leysa geysistórt púsluspil.

Seytjándu aldar herskip voru ekki aðeins stríðsvélar, þau voru fljótandi hallir. Á höggmyndunum sem bjargað var voru merki um gyllingu og málningu. Greining með nútímaaðferðum sýnir að þær voru málaðar með skærum litum á rauðum grunni. Höggmyndirnar sýna ljón, hetjur úr biblíunni, rómverska keisara, sjávardýr, gríska guði og margt fleira. Markmið þeirra var að varpa ljóma á sænska einvaldinn og sýna vald hans, menningu og pólitískan metnað.

HVERT ER ÁSTAND VASA Í DAG?

Viðhald og verndun Vasa er verkefni sem ekki tekur enda. Verndun þess er mjög háð stöðugu loftslagi. Meðan flakið lá í sjónum ryðguðu járnboltarnir burt og gerðu eikarplankana svarta. Að lokum var þeim aðeins haldið saman með trénöglum. Mengunarefni í sjónum mynduðu mikið magn af brennisteini sem síaðist inn í tréð. Nú hvarfast brennisteinninn við súrefni og myndar brennisteinssýru. Sýran tærir viðinn, þótt hún sé ekki hættuleg þeim sem heimsækja safnið. Rannsóknir á verndun Vasa til langs tíma halda enn áfram.

TÍMAVÉLIN VASA

Þegar Vasa sökk stöðvaðist tíminn. Það sem bjargað var 1961 var ósnortinn hluti af 17. öldinni. Hver þeirra þúsunda hluta sem bjargað var segir sína sögu. Meðal þeirra eru bein áhafnarmeðlima og eigur þeirra, sem og búnaður skipsins.

Í leirnum og leðjunni í botni skipsins fundu björgunarmennirnir þau sex segl sem ekki voru uppi þegar skipið fórst. Þetta eru elstu segl sem til eru í heiminum og þau voru viðkvæm eins og kóngulóarvefur áður en þau voru meðhöndluð með varnarefni. Rannsóknir á mununum sem fundust halda enn áfram. Á sýningum safnsins eru sýndir margir einstæðir hlutir, sem endurlífga horfna öld og það fólk sem þá var uppi.

VASA-SAFNIÐ HEIMSÓTT

Opnunartímar

2 janúar-31 maí og 1 september-30 desember 10.00-17.00, miðvikudaga 10.00-20.00 (Vasa-veitingahúsið 10.00-16.30)
1 júní-31 ágúst 8.30-18.00 (Vasa-veitingahúsið 8.30-17.30)
31. desember 10.00-15.00 (Vasa-veitingahúsið 11.00-14.00)
Lokað 1. janúar, 23. – 25. desember

Aðgangur

Fullorðnir SEK 150
Börn (0 – 18 ára) SEK 0

Leiðsaga um safnið á ensku fer fram nokkrum sinnum á dag.
Leiðsögu fyrir hópa sem í eru fleiri en 9 manns verður að panta fyrirfram.
Kvikmyndin um Vasa með enskum skýringartexta er sýnd á klukkutíma fresti alla daga.
Skoðun með öðru tungumáli má bóka fyrirfram.
Tölvupóstfang fyrir bókun: bokningen.vasa@maritima.se

Hvernig á að komast til Vasa-safnsins

Safnið er í Djurgården, til hægri eftir að farið er yfir brúna Djurgårdsbron. Heimilisfang: Galärvarvsvägen 14, Stockholm.
Gangið frá Centralstation (Stockholm C) (30 mínútur) eða frá Karlaplan Tunnelbana station (10 mínútur).
Sporvagn 7 frá Hamngatan.
Strætisvagn 69 frá Centralstation (Stockholm C) eða Sergels Torg.
Strætisvagn 67 frá Karlaplan.
Ferja frá Slussen/Gamla Stan (og frá Nybroplan að sumri til).

Djurgården

Eyjan Djurgården sem eitt sinn var veiðisvæði konungsins, er nú stórkostlegt skemmtisvæði mitt í Stokkhólmi, heimsótt af miljónum manna á hverju ári.  Vinsælustu staðirnir eru Skansen, sem er fyrsta safn í heimi undir beru lofti, Junibacken með hinum vinsælu persónum úr barnabókum Astrid Lindgren, skemmtigarðurinn Gröna Lund, Vasa safnið og margir fleiri staðir.

Rútur:

Stæði fyrir rútur eru fyrir utan safnið.

Einkabílar:

Lítið er um stæði í Djurgården. Auðveldst er að leggja áður en komið er að brúnni – á Strandvägen eða Narvavägen.